Eftir að hafa verið lokuð í 44 klukkustundir, eða síðan klukkan 2 aðfaranótt mánudags, hefur Hellisheiðin verið opnuð á nýjan leik.
Vegurinn yfir Hellisheiði var opnaður klukkan 22 í kvöld eftir stífan snjómokstur í allan dag. Í nótt verður áfram unnið að útmokstri, svo gera má ráð fyrir því að ekki séu allir tvíbreiðir kaflar fullmokaðir.
Nú hafa allar helstu aðalleiðir á Suðurlandi verið opnaðar eftir óveður síðustu daga, nema Lyngdalsheiðin og Grafningsvegur allur, frá Biskupstungnabraut að Þingvallavegi. Þá er þungfært víða í uppsveitum Árnessýslu þar sem mikið hefur snjóað í kvöld.