Hjúkrunarheimilið Lundur hefur fengið útlhutað 88,5 milljónum króna frá framkvæmdasjóði aldraðra til byggingar á átta nýjum herbergjum.
Ætlunin er að byggja einstaklingsherbergi og með því leggja af tvíbýli á heimilinu. Íbúum á Lundi mun ekki fjölga við stækkunina en þeir eru nú þjrátíu talsins. Mestmegnis er þar um að ræða hjúkrunarrými.
„Við vonumst til að geta hafið framkvæmdir á þessu ári,“ segir Margrét Sigurgeirsdóttir, forstöðumaður heimilisins. Í tengslum við þessa stækkun er jafnframt horft til frekari uppbyggingar á svæðinu við Lund, t.a.m. með því að byggja upp þjónustuíbúðir og þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara.
Skipaður hefur verið starfshópur sem móta á tillögur að framkvæmdinni og vinna að gerð nýs deiliskipulags.