Rannsókn á heilsufarslegum afleiðingum ösku og annarra efna frá eldgosinu í Eyjafjallajökli hefst á mánudaginn.
Rannsóknin er á vegum sóttvarnalæknis og er unnin í samvinnu við sóttvarnalækna og heilbrigðisstarfsmenn á Suðurlandi, lækna og hjúkrunarfræðinga lungnadeildar Landspítalans og fleiri aðila.
Rannsóknin mun fyrst og fremst ná til þeirra sem orðið hafa fyrir hvað mestu öskufalli í námunda við eldstöðina undanfarnar vikur. Markmiðið er að meta hugsanleg bráð heilsufarsleg áhrif gjóskunnar, gildi sóttvarnaráðstafana sem beitt hefur verið og hvort grípa þurfi til frekari ráðstafana.
Einnig er áætlað að meta langtíma áhrif öskufalls á heilsufar.