Ákveðið hefur verið að taka upp fyrri afgreiðslutíma heilsugæslustöðvarinnar á Hvolsvelli frá og með 16. febrúar næstkomandi og verður því opið fimm daga vikunnar, bæði á Hellu og Hvolsvelli.
Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá forráðamönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Ásahrepps, Rangárþings ytra og Rangárþings eystra sem send var út í dag.
Þann 11. janúar síðastliðinn var haldinn fjölmennur íbúafundur á Hvolsvelli þar sem skýr krafa kom fram um að draga til baka þá tilraun HSu að hafa opið þrjá daga vikunnar á Hvolsvelli en íbúar töldu það vera skerðingu á almennri grunnþjónustu sinni.
Í kjölfarið héldu framkvæmdastjórn stofnunarinnar og fulltrúar sveitarstjórnanna þrjá upplýsinga- og samráðsfundi og var það sameiginleg niðurstaða fundanna að flýta endurskoðun á opnunartímanum og að fyrri opnunartími taki aftur gildi.
Ennfremur segir í yfirlýsingunni að nýjungar í útfærslu og skipulagi heilbrigðisþjónustu séu til skoðunar til viðbótar við núverandi þjónustu.