Í gær var tilkynnt að Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði er stofnun ársins í könnun Sameykis. Heilsustofnun var efst í stærsta flokknum; Ríkisstofnanir og sjálfseignarstofnanir með 90 starfsmenn eða fleiri með 4,32 í einkunn.
„Þessi niðurstaða er afskaplega ánægjuleg fyrir okkur öll, þetta er niðurstaða úr könnun meðal allra starfsmanna, þannig að þetta er okkar sigur og mjög ánægjulegur fyrir okkur öll,“ segir Þórir Haraldsson, forstjóri Heilsustofnunar.
Titlana Stofnun ársins og Stofnun ársins – borg og bær hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem könnun Sameykis náði yfir að mati starfsmanna þeirra. Könnunin náði til um 31 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum.
Í könnuninni eru þátttakendur meðal annars spurðir út í trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör og vinnuskilyrði. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum.