Gröfuþjónustan Hvolsvelli ehf bauð lægst í gerð nýrrar götu á Hvolsvelli á milli Vallarbrautar og Austurvegar, sem liggur að leikskólanum Öldunni.
Tilboð Gröfuþjónustunnar hljóðaði upp á 76 milljónir króna og var 1,4 milljónum yfir kostnaðaráætlun sem verkfræðistofan EFLA gerði fyrir Rangárþing eystra.
Fimm önnur tilboð bárust í verkið. Spesían ehf bauð 77,5 milljónir króna, Aðalleið 77,7 milljónir, Þjótandi 78,5 milljónir, Stórverk 79,9 milljónir og Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir bauð 83,9 milljónir króna.
Verkið „Gatnagerð-Leikskólagata“ felur í sér jarðvegsskipti, styrktarlag og yfirborðsfrágang ásamt lögnum í götuna og uppsetningu ljósastaura. Verkinu á að vera lokið þann 1. júní næstkomandi.
Verkfræðistofan EFLA mun nú fara yfir tilboðin og er gerður fyrirvari á niðurstöðu útboðs af hálfu Rangárþings eystra.