Hömlur ehf., dótturfélag Landsbankans hefur selt iðnfyrirtækið Límtré Vírnet ehf. til Uxahryggja ehf.
Söluverð hlutafjár Límtrés Vírnets er 120 milljónir króna en þar að auki nema vaxtaberandi skuldir um 600 milljónum króna, samkvæmt fréttatilkynningu frá Landsbankanum.
Uxahryggir er félag stofnað af heimamönnum á Suður- og Vesturlandi gagngert til að koma að kaupum á Límtré Vírneti, segir í tilkynningu Landsbankans.
Tveir með 80% hlut
Hluthafar í Uxahryggjum eru átta, þ.á m. Fjárfestingarfélagið Stekkur ehf. sem er í eigu Kristins Aðalsteinssonar, sem áður var einn eigenda Eskju á Eskifirði, sem á 45% hlut, Bingó ehf. sem er í eigu Hjörleifs Jakobssonar, fyrrum forstjóra Kjalars, sem á 35% hlut, en aðrir hluthafar, þ.e. Pétur Geirsson, Guðmundur Magnússon og Eignarhaldsfélag Suðurlands eiga þar minni hluti ásamt Bláskógarbyggð, Borgarbyggð, og Hrunamannahreppi.
Uxahryggir hafa í hyggju að auka hlutafé Límtrés Vírnets og stefnt er að því að laða að félaginu fleiri heimamenn. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á starfsemi félagsins og verða aðalstöðvar þess áfram í Borgarnesi.
Starfseiningar Límtrés Vírnets, Vírnet í Borgarbyggð, Límtré á Flúðum og Yleiningar í Reykholti, voru hluti af samstæðu BM Vallár hf. sem tekin var til gjaldþrotaskipta í maí 2010. Rekstrarfélag sem Landsbankinn stofnaði tók við rekstri fyrirtækisins 25. maí og þá lýsti bankinn því yfir að hann hygðist selja reksturinn innan 6 mánaða. Með stofnun rekstrarfélagsins tókst Landsbankanum að tryggja 65 störf og var flestöllum starfsmönnum boðið starf í hinu nýja félagi, segir í tilkynningu.
15 sýndu áhuga á að kaupa fyrirtækið í útboðinu en 11 skiluðu inn óskuldbindandi tilboði og 8 fengu aðgang að gagnaherbergi til að afla sér frekari upplýsinga.