Kaup á fyrirtækinu Límtré Vírnet er til skoðunar hjá aðilum á Suðurlandi og í Borgarnesi en fyrirtækið hefur verið auglýst til sölu af Landsbankanum.
Var það hluti af þrotabúi BM Vallár sem bankinn tók til gjaldþrotaskipta í sumar. Atvinnuþróunarfélögin á Suðurlandi og Vesturlandi hafa fengið það verkefni að athuga kosti þess að kaupa fyrirtækið og í framhaldinu finna fjárfesta úr hópi heimamanna ef einingin er talin rekstrarhæf. Rætt hefur verið um að stofna fjárfestingasjóð um verkefnið með aðkomu ýmissa aðila, meðal annars sveitarfélaga eða byggðasamlaga. Samkvæmt heimildum Sunnlenska hafa sveitarfélögin Hrunamannahreppur og Borgarbyggð sýnt þessu áhuga, en ekki í þeim tilgangi að kaupa fyrirtækið, fremur til að vera þeim til aðstoðar sem hefðu áhuga að kaupa og reka fyrirtækið áfram á þeim stöðum þar sem starfsemi fer fram.
Um 60 manns starfa hjá fyrirtækinu, langflestir í Borgarnesi þar sem skrifstofur þess og framleiðsla blikk og járnvöru er til húsa. Átta starfsmenn eru á Flúðum og fjórir í einingaverksmiðjunni í Reykholti í Biskupstungum. Horft er til þess að á þessum stöðum sé mikil þekking á rekstri þessara fyrirtækja sem getur reynst dýrmæt þegar horft er til áframhaldandi þjónustu þeirra við íslenskan byggingamarkað.