Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Menntamálastofnun að leita skýringa frá nokkrum sveitarfélögum á miklum fjölda fjarvista eða undanþága frá samræmdum prófið í fyrrahaust.
Nokkur sunnlensk sveitarfélög eru meðal þeirra sem fengið hafa bréf frá stofnuninni þar sem óskað er upplýsinga um ástæður slælegrar mætingar nemenda í samræmd próf.
Þrjú sveitarfélög á Suðurlandi eru tiltekin með lágt mætingarhlutfall, það er eitt af fimm lægstu á landinu í hverju prófi og aldri fyrir sig. Þannig mætti 69% tíundu bekkinga í íslenskuprófið í Hveragerði (lægsta á landinu), 72,4% þeirra mættu í stærðfræðina og 79,3% í enskuna. Meðaltalið í stærðfræðinni á Suðurlandi var 84,2%, á meðan að landsmeðaltal var 87,6%, svo dæmi séu tekin.
Aðeins tveir af hverjum þremur í 7. bekk í Þorlákshöfn var mættur til prófs, í íslensku og stærðfræði. Var það slakasta mætingin á landsvísu. Rangárþing eystra komst einnig á listann yfir lægstu hlutföllin í 7. bekk, þegar kom að íslenskuprófinu, en þar voru mættir 77,8 prósent nemenda í Hvolsskóla. Þegar tölur yfir mætingu níu ára barna, í 7. bekk, eru skoðaðar, kemur í ljós að Hveragerðisbær kemst aftur á listann, með 75,8% mætingu í íslenskuna en 81,8% í stærðfræði.
Samkvæmt reglugerð er skólastjóra heimilt að veita nemanda undanþágu frá próftöku að fengnu samþykki foreldris eða forráðamanns ef gildar ástæður mæla með því, t.d ef íslensa er ekki móðurmál nemanda og umræddur nemandi hafi dvalið á landinu til skamms tíma og hafi ekki gott vald á íslenskunni. Þá nefnir reglugerðin heimild til nemenda sem taldir eru víkja frá almennum þroska að þeim henti ekki samræmd könnunarpróf.
Í skýrslu mats- og greiningarsviðs menntamálastofnunar segir að ástæða sé til að skoða fjölda undanþága vegna þroskahömlunar. Er þar bent á að sá fjöldi komi illa heima og saman við þann fjölda sem nýtur þjónustu greiningar og ráðgjafarþjónustu. „Sú spurning vaknar hvort skólar séu að túlka heimildarákvæði […] um undanþágu frá þátttöku í samræmdum prófum of vítt,“ segir í niðurlagi skýrslunnar, sem Sunnlenska hefur undir höndum.
Fanney Ásgeirsdóttir, skólastjóri í Grunnskóla Hveragerðis, segir að þessi mál séu skoðuð þar en nokkur vandi sé að finna nákvæma skýringu aftur í tímann. Hins vegar séu umræddir árgangar fámennir og því er fljótt að muna um hvern og einn sem er í burtu.
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu