Fólk sem er í sóttkví eða einangrun á heimilum og í sumarbústöðum vegna COVID-19 þarf að ganga vandlega frá öllu sorpi og úrgangi til þess að hindra frekari smit.
Allur úrgangur sem berst frá þessum heimilum ætti að flokkast sem almennt, óflokkað sorp og ekki að fara í endurvinnslu. Þetta er gert af heilsufarsástæðum því sorpið getur mögulega verið sóttmengað.
Þetta kemur fram á Facebooksíðu Grímsnes- og Grafningshrepps og þar er biðlað til allra þeirra sem eru í sóttkví eða einangrun að setja allt endurvinnsluefni beint í tunnur fyrir óflokkað sorp.
Endurvinnsluefni er meðhöndlað af starfsmönnum sorphirðuaðila eftir að það er sótt, og því þarf að gæta fyllstu varúðarráðstafana til þess að forðast möguleg smit.