Tíu ungmenni á aldrinum 14-16 ára úr félagsmiðstöðinni Tvistinum á Hvolsvelli fara í júlí til Wales á vegum ungmennaskiptaverkefnis Evrópu unga fólksins.
Þar hitta þau fyrir unglinga úr félagsmiðstöðvum frá Wales og Póllandi í þeim tilgangi að fræðast um menningu og tómstundir jafnaldra sinna.
Undirbúningur ferðarinnar hefur verið í höndum Þrastar Freys Sigfússonar, forstöðumanns Tvistsins og Azfar Karim, umsjónarmanns og kennara í Hvolsskóla. „Í ferðinni munu þau fá það verkefni að túlka menningu unglinga og upplifun sína þar ytra í gegnum ljósmyndun,“ segir Þröstur Freyr. Fá þau meðal annars leiðbeiningar um ljósmyndun á sérstakri vinnustofu fyrstu dagana í ferðinni.
Þeir Þröstur og Azfar hafa báðir sótt námskeið á vegum Evrópu unga fólksins með styrk frá Evrópusambandinu í þeim tilgangi að undirbúa ferðalagið og ungmennaskipti. Í framhaldi af ferð krakkanna úr Tvistinum, sem allir eru nemendur í Hvolsskóla, er mögulegt að ungmenni erlendis frá heimsæki Rangárvallasýsluna í framhaldinu.
Þá er horft til þess að í framhaldinu haldi svona verkefni áfram. „Við höfum mögulega tækifæri á að fara síðar til landa eins og Hollands, Þýskalands eða Tyrklands,“ segir Azfar, sem kom í byrjun vikunnar frá Cardiff þar sem hann vann að undirbúningi ferðarinnar. „Það er frábært fyrir þessa krakka að fá þetta tækifæri til ferðalaga á þessum tímum,“ segir Þröstur Freyr, en kostnaðurinn við ferðalög ungmennanna fæst að stórum hluta greiddur úr styrktarsjóðum á vegum Evrópu unga fólksins.