Þjóðhátíðardagur Dana er í dag og var töluvert tilstand í tilefni dagsins á Eyrarbakka enda liggja tengslin við Danmörku þar víða. Flaggað var víða dönskum í dag, svo sem við Húsið og Eyrarbakkakirkju.
Í dag var í heimsókn á Eyrarbakka hópur starfsfólks Menningar- og ráðstefnuseturs Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Þar eru einnig Sendiskrifstofur Færeyinga og Grænlendinga og svo sendiráð Íslands.
Þessa sérstöku heimsókn má að ýmsu rekja til tveggja Eyrarbakkakvenna; Júlíu Björnsdóttur og Ingu Rún Björnsdóttur sem hafa starfað á Norðurbryggju, Júlía í fullu starfi í eitt og hálft ár og Inga Rún í hlutastarfi.
Fararstjóri hópsins í Íslandsferðinni er Ásta Stefánsdóttir en maður hennar er Bergur Bernburg sem rætur á að Eyri á Eyrarbakka.
Í upphafi heimsóknarinnar á Eyrarbakka kom hópurinn við á Ránagrund. Síðan farið í Eyrarbakkakirkju þar sem Lýður Pálsson og Siggeir Ingólfsson fræddu gesti um sögu Eyrarbakkakirkju og þá sérstaklega altaristöfluna sem er eftir Lovísu drottningu Kristjáns konungs IX. Þá var borðaður hádegisverður í Rauða-Húsinu. Byggðasafnið og Húsið var skoðað að lokinni máltíð og loks farið í frekari skoðunarferð um Eyrarbakka.
Frá þessu er greint á heimasíðu Menningar-Staðs.