Í gær kom Maung Maung Lwin, forseti skáksambands Myanmar í Asíu og varaforseti og gjaldkeri ASEAN eða Skáksambands Suðaustur Asíu í heimsókn á Selfoss.
Hann heimsótti gröf Bobby Fischer í Laugardælakirkjugarði og kom svo í Fischersetrið á Selfossi.
Lwin sagðist bera mikla virðingu fyrir skákmanninum Bobby Fischer og sagðist hann muna vel eftir heimsmeistareinvíginu í skák í Reykjavík 1972 milli Boris Spassky og Bobby Fischer, en þá hafi hann verið 11 ára.
Áður en Lwin kom til Íslands hafði hann verið á Ólympíuskákmótinu í Noregi og ákvað hann að nýta ferðina og heimsækja Ísland, koma að gröf Fischers og sjá safnið um meistarann.