Heitasti dagur ársins á Íslandi, enn sem komið er, var í dag, en hæsti hiti á landinu mældist á veðurstöðvum hér á Suðurlandi.
Þannig fór hitinn í 22,7°C bæði á Hellu og Eyrarbakka og 22,6°C á Þingvöllum. Til fjalla var nokkuð mikil sveifla á hitastiginu en Lyngdalsheiði komst á kortið yfir minnsta hita sólarhringsins, 6,3°C í nótt. Þar var svo 20°C hiti kl. 13 í dag.
Sunnlenska.is hefur fengið fréttir af ótrúlegum hitatölum í uppsveitum Árnes- og Rangárvallasýslna í dag. Myndin sem fylgir þessari frétt er tekin í Hrunamannahreppi þar sem mælir sýndi 29°C í skugga og enn hærri tölur bárust úr Rangárvallasýslunni.