Vegna endurtekinna bilanna á heitavatnslögn sem liggur til Eyrarbakka, Stokkseyri og Sandvíkurhrepps má gera ráð fyrir áframhaldandi truflunum á þrýstingi á heitu vatni til þessara svæða í nótt.
Vatnið var tekið af lögninni í morgun þar sem vinna átti að viðgerð á henni í dag. Þegar þrýstingur var tekinn af lögninni kom upp önnur bilun og síðan aftur í kvöld eftir að vatninu hafði verið veitt á lögnina aftur.
Í tilkynningu frá Selfossveitum segir að viðgerð hefjist aftur á morgun þegar aðstæður leyfa en mjög slæm spá er fyrir svæðið í fyrramálið. Heitavatnslaust verður á meðan viðgerð stendur yfir. Íbúar eru beðnir velvirðingar á þessum truflunum.
UPPFÆRT 21/2 kl. 11:31: Verið er að undirbúa viðgerð á Eyrarlögninni og ætti hún að hefjast strax eftir hádegi. Búast má við að vatnslaust verði fram eftir degi á meðan viðgerð stendur yfir. Selfossveitur brýna fyrir fólki að passa upp á að skrúfað sé fyrir alla krana svo ekki flæði vatn þegar það kemur aftur á.
UPPFÆRT 21/2 kl. 16:28: Vatni verður hleypt á lögnina seinnipartinn í dag. Viðgerðir eru í gangi en búist er við að þeim ljúki núna seinnipart dagsins og þá verður prófað að hleypa á lögnina til Stokkseyrar, Eyrarbakka og Sandvíkurhrepps.