Heitavatnslaust á Hellu og Hvolsvelli

Hella. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bilun varð síðdegis á heitavatnslögn Veitna þar sem hún liggur yfir Ytri-Rangá við Hellu. Því er heitavatnslaust á veitusvæðinu austan árinnar, þar með talið á Hellu og Hvolsvelli, og við Ægissíðu.

Unnið er að viðgerð og reiknað er með að hún standi fram eftir kvöldi en að vatn komist þá á að nýju í kvöld.

Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju.

Í kuldatíð er ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni.

Þetta er í þriðja sinn á stuttum tíma sem heitavatnslögnin bilar á þessum stað en næstkomandi miðvikudag verður gamla lögnin fjarlægð og ný lögnin hífð á sinn stað.

Fyrri greinSet sigraði í firmakeppni SSON
Næsta greinFjórir leikmenn skrifa undir hjá Selfoss