Heitavatnslaust í Hveragerði á fimmtudag

Ljósmynd/Veitur

Veitur hyggjast bæta við þriðja varmaskiptinum í varmaskiptastöðinni í Hveragerði til að mæta aukinni þörf á heitu vatni vegna mikillar uppbyggingar í bænum.

Af þessum sökum verður lokað fyrir heitt vatn hjá viðskiptavinum í Hveragerði (tvöfalda kerfið) fimmtudaginn 20. maí frá kl. 09:00-17:00.

„Með þriðja varmaskiptinum náum við að gera rekstur hitaveitunnar öruggari fyrir þá íbúa og fyrirtæki sem tengd eru við tvöfalda kerfið, sérstaklega þegar hvað kaldast er yfir veturinn. Við erum að vonast eftir mildu veðri á fimmtudaginn en bendum ykkur á að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur. Þannig má halda varma í híbýlum,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna.

Fyrri greinÞrettán í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinFangi dæmdur í tíu mánaða fangelsi