Heitt vatn fannst í gær í rannsóknarborholu sem verið er að bora á bökkum Ölfusár við Selfossveg. Gera þarf frekari rannsóknir á holunni áður en kemur í ljós hvort það sé nýtanlegt.
Bormenn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða hafa unnið að boruninni á bornum Freyju og þegar komið var á 888 metra dýpi fannst vatnsæð með 85°C heitu vatni.
Frekari rannsókna þörf
Sveinn Ægir Birgisson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, segir að margt eigi eftir að gerast á næstunni áður en í ljós kemur hvað holan gefur í raun.
„Þessi hola er boruð sem rannsóknarhola með þeim möguleika að breyta yfir í vinnsluholu. Næst þarf að kanna hversu mikið vatn er að finna þarna og hvernig efnainnihaldið í því er. Ef þær mælingar skila góðum árangri mun virkjun á holunni hefjast. Þá þurfum við að breikka og fóðra hana, ásamt því að setja niður dælu og byggja vinnsluhús,“ segir Sveinn Ægir í samtali við sunnlenska.is.
Það gæti því liðið allt að eitt ár þangað til vatnið úr holunni kemst inn á veitukerfi Selfossveitna, ef það er vinnanlegt.
Hola við Tryggvaskála gaf góðar vísbendingar
Síðustu ár hefur jarðhitaleit staðið yfir á suðurbakka Ölfusár, allt frá Tryggvaskála niður að Geitanesi og hafa nokkrar rannsóknarholur verið boraðar.
„Hola sem við boruðum við Tryggvaskála í fyrra benti til að jarðhiti væri á svæðinu en þar hittum við ekki á neitt vatn. Við ákváðum að bora við Selfossveg út frá þeim upplýsingum og vísbendingum sem við höfðum fengið við rannsóknarleitina hjá okkar ráðgjöfum hjá Íslenskum orkurannsóknum og þar spila holan við Tryggvaskála og nýja vinnsluholan fyrir utan á stóran part,“ segir Sveinn Ægir að lokum.