Heldur minni veiði en undanfarin ár

Veiðin í Veiðivötnum hefur verið heldur minni í sumar en nokkur undanfarin sumur. Eftir því sem næst er komist er hún nær því að vera það sem var árin 2002 til 2004, en miklu meiri en tíðkaðist fyrir þann tíma, þe. fyrir aldamótin.

Litlisjór hefur verið nokkuð daufur, og ekki gott að segja til um af hverju það stafar, að sögn Arnar Óskarssonar, sem heldur úti vefnum www.veidivotn.is. Sem dæmi var nokkuð rok þar í síðustu viku og öskumökkur sem stóð yfir vötnin og því hafa menn að líkindum ekki staðið mikið við veiðina í stóru vötnunum. Við slíkar aðstæður veiðist einnig lítið á flugu. Í vikunni veiddust aðeins 917 fiskar, 497 urriðar og 420 bleikjur, sem lítil veiði og má beint tengja við afleitar veðuraðstæður.

Alls hafa 11.606 fiskar komið á land í vötnunum það sem af er sumri. Í síðustu viku veiddist best í Nýjavatni, 307 fiskar. Stóra Fossvatn kom næst með 175 fiska en í Litlasjó fengust aðeins 94 fiskar. Meðalþyngd fiska er rúm 2 pund sem telst mjög gott, sérstaklega þar sem stór hluti aflans er bleikja.

Fyrri greinAuglýsingaskilti alla jafna fjarlægð
Næsta greinTíðindalítið tap gegn Djúpmönnum