Heldur minni virkni virðist hafa verið í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi í nótt en í gær og í fyrrinótt.
Allmargir voru við gosstöðvarnar fram á kvöld í gærkvöldi en nær allir voru komnir niður í byggð á þriðja tímanum í nótt og var vakt Landsbjargar á Fimmvörðuhálsi þá hætt. Þegar leið á kvöldið fór færð á Mýrdalsjökli að þyngjast og þurftu nokkrir á aðstoð Landsbjargar að halda við að komast um jökulinn til byggða.
Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls fyrir daginn í dag í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli: Norðaustan og norðan 10-15 m/s og yfirleitt léttskýjað, en búast má við stífum vindhviðum á svæðinu (allt að 15-20 m/s). Frost 6 til 13 stig. Dregur úr vindi seint í dag.