Helga Dóra Gunnarsdóttir, einkaþjálfari, hefur fest kaup á heilsuræktinni Lifandi hús á Selfossi.
Lifandi hús var áður í eigu Eyglóar Lindu Hallgrímsdóttur en hún hefur ákveðið að snúa sér að öðru.
„Það er margt framundan og mjög spennandi tími að hefjast hjá mér þegar ég tek við Lifandi húsi af Eygló Lindu,“ segir Helga en hún mun taka við rekstrinum þann 1. september næstkomandi.
Að sögn Helgu verður reksturinn með svipuðu sniði og áður. „Eitthvað nýtt og skemmtilegt verður í boði eins og til dæmis Foam flex sem ég byrja með núna í ágúst og Jumping fitness hjá stelpunum í Danssport,“ segir Helga en Danssport og Lifandi hús eru með sameiginlega aðstöðu við Eyraveg 37 Selfossi.
„Stundataflan okkar kemur inn á næstu dögum og þar er eitthvað við allra hæfi í heilsurækt og dansi. Ég held áfram með mína Boddýrokk tíma sem hafa verið mjög vinsælir. Svo verður einnig tabata, pilates, rope yoga, móðir og barn, lúxus fyrir konur, gigtarhópur, ketilbjöllur, Zumba, einkaþjálfun og fleira í boði,“ segir Helga en að hennar sögn leggja þau mikið upp úr persónulegri þjónustu.
„Ég hvet fólk eindregið til að koma og prófa og sjá hvað hentar sér. Allir velkomir í prufutíma. Ég hvet sérstaklega fleiri karla til að koma og slást í hópinn með okkur,“ segir Helga að lokum.