Helgi S. Haraldsson, oddviti B-listans og forseti bæjarstjórnar Árborgar, ætlar ekki gefa kost á sér til þess að leiða lista Framsóknarflokksins í Árborg í kosningunum í vor.
„Af persónulegum ástæðum og utanaðkomandi ástæðum hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér til þess að leiða lista Framsóknarflokksins í kosningunum í vor. Það er mikið starf og tekur mikinn tíma að vera bæjarfulltrúi í svo stóru sveitarfélagi sem Árborg er og nauðsynlegt að þeir sem til þess veljast átti sig á því,“ sagði Helgi í samtali við sunnlenska.is í kvöld.
Framsóknarflokkurinn í Árborg boðaði prófkjör fyrr í vetur og gaf Helgi kost á sér í 1. sætið. Í byrjun þessa mánaðar var tilkynnt að stjórn Framsóknarfélags Árborgar og frambjóðendurnir í prófkjörinu hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu að hætta við prófkjörið og stilla upp á listann.
„Hugur minn stóð til þess að óska eftir umboði flokksmanna Framsóknarflokksins til þess að leiða framboðið við næstu kosningar í vor eins og ég hef áður tilkynnt. En nú hef ég ákveðið að nóg sé komið,“ segir Helgi.
„Undanfarin ár hafa verið ævintýraleg í fólksfjölgun og uppgangi í Sveitarfélaginu Árborg. Fólksfjölgun hefur verið langt yfir landsmeðaltali og mikil áskorun hefur fylgt því að taka á móti öllu þessu frábæra fólki og um leið tryggja uppbyggingu innviða sveitarfélagsins. En það er ekki nóg að byggja upp innviði s.s skóla, gatnakerfi, vatnsveitu og fleira. Það kostar líka að reka kerfið og fjölga starfsfólki til að sinna þeim,“ segir Helgi.
„Undanfarin fjögur ár hef ég tekið þátt í þessari vegferð ásamt þremur öðrum framboðum sem mynduðu meirihluta í sveitarfélaginu eftir síðustu kosningar og verið treyst til þess að leiða þetta starf með því að vera kosinn forseti bæjarstjórnar. Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef átt samleið með síðastliðin fjögur ár, hvort heldur eru íbúar, starfsfólk sveitarfélagsins eða aðrir og óska þeim öllum velfarnaðar á vegferð sinni,“ segir Helgi að lokum.