Helgi Sigurður Haraldsson, forseti bæjarstjórnar Árborgar, hefur ákveðið að segja sig úr Framsóknarflokknum og hefur hann upplýst skrifstofu og formann flokksins um þá ákvörðun sína.
Helgi greinir frá þessu í aðsendri grein á sunnlenska.is, þar sem hann rekur aðdraganda þess að hann ákvað að hætta í sveitarstjórnarpólitík fyrr í vor.
Helgi gaf kost á sér í 1. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Árborg fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Prófkjör flokksins var hins vegar blásið af og segir Helgi í greininni að þarna hafi tekið við einhver undarlegasta atburðarrás sem hann hefur upplifað í sínu stjórnmálastarfi.
„Vinnubrögðin sem viðhöfð voru til að „losna“ við mig komu mér á óvart og ollu mér miklum vonbrigðum. Mínir flokksfélagar, fólkið sem ég treysti og er búin að vinna með síðustu ár gat ekki komið heiðarlega fram við mig, það er verulega sárt,“ segir Helgi meðal annars í greininni, sem hægt er að lesa hér.