Síðasta helgi var með besta móti hjá lögreglunni hjá Selfossi, „sem var afar kærkomið“, eins og segir í dagbók hennar.
Maður var sleginn í höfuðið fyrir utan skemmtistaðinn Hvítahúsið á Selfossi aðfaranótt sunnudags. Við höggið opnaðist sár við gagnauga. Manninum var komið undir læknishendur og reyndist hann ekki mikið slasaður. Ástæða árásarinnar mun hafa verið vegna samskipta mannanna fyrr um kvöldið fyrir svo utan það að menn voru vel í glasi.
Í vikunni bárust sex kærur vegna eignaspjalla af ýmsu tagi þó aðallega vegna rúðubrota.
Fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt þar sem nokkrir hlutu minni háttar meiðsl.
Maður féll af hestbaki skammt frá Selfossi á laugardag. Ekki er vitað um meiðsli annað en að þau sé minni háttar.
Einn var kærður fyrir ölvunarakstur og annar fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna.