Uppbygging á 5G fjarskiptakerfinu er nú í fullum gangi hér á landi. Hella bættist í hóp þeirra bæja sem státað geta af 5G netsambandi eftir að fjarskiptafyrirtækið Nova setti upp senda þar og í Sandgerði í síðustu viku.
Nova, sem fékk 5G rekstrarleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun í vor og hóf að bjóða þjónustuna til almennra viðskiptavina þann 5. maí síðastliðinn, fyrst íslenskra fjarskiptafyrirtækja, vinnur nú að uppbyggingu 5G þjónustusvæðis á fleiri stöðum á landinu. Auk Hellu og Sandgerðis eru 5G sendar einnig komnir upp í Vestmannaeyjum og á nokkrum svæðum í Reykjavík. Stefnir Nova að því að vera búið að 5G-væða stærstan hluta landsins á næstu tveimur árum.
Finna fyrir miklu þakklæti frá íbúum
„Það er gaman að geta veitt íbúum Sandgerðis og Hellu aðgang að hraðasta netsambandi í boði er á markaðnum í dag. Það er sama hvar þú ert í dag, stórri borg eða smáum bæ, öflug fjarskipti og gott netsamband er lykilþörf í öllum rekstri. Hvort sem er í atvinnuuppbyggingu eða þjónustu við ferðmenn, innlenda sem erlenda. Við erum búin að finna fyrir miklu þakklæti frá íbúum og það er ljóst að við munum halda ótrauð áfram á þeirri vegferð að 5G-væða Ísland,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.
Hundraðföldun á flutningsgetu frá 4G kerfinu
5G fjarskiptakerfi hafa verið að ryðja sér hratt til rúms í heiminum en hraði og flutningsgeta gagna með 5G er um hundraðfalt meiri en á 4G kerfinu, svo dæmi sé tekið. Nova er fyrsta fjarskiptafyrirtækið til að styðja 5G hér á landi en samhliða innleiðingunni á 5G mun Nova endanlega fasa út 3G fjarskiptakerfi fyrirtækisins. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að taka niður síðasta 3G sendinn fyrir lok árs 2023.