Suðurlandsvegi um Hellisheiði var lokað um klukkan 19 í kvöld eftir að eldur kom upp í bifreið fyrir ofan Kambana. Þegar slökkvistarfi var lokið var Hellisheiði og Þrengslum lokað vegna veðurs.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um eld í ökutæki á heiðinni laust fyrir klukkan 19 í kvöld og voru slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu í Þorlákshöfn kallaðir á vettvang.
UPPFÆRT KL. 19:34: Búið er að slökkva eldinn í bifreiðinni og slapp ökumaðurinn með skrekkinn. Verið er að bíða eftir dráttarbíl til þess að fjarlægja bifreiðina og má vænta þess að vegurinn verði opnaður aftur um kl. 20:00.
UPPFÆRT KL. 19:38: Búið er að loka Hellisheiði, Sandskeiði og Þrengslum vegna veðurs.
UPPFÆRT KL. 23:27: Opnað hefur verið á nýjan leik yfir Hellisheiði.
Í kvöld má búast við 18-23 m/s, snjókomu, skafrenningi og blindu fram undir miðnætti þegar nær að hlána á fjallvegunum. Hálkublettir eru mjög víða á Suðurlandi.