Hellisheiði og Þrengslum lokað

Búið er að loka veginum yfir Hellisheiði og Þrengsli vegna veðurs. Einnig var Suðurlandsvegi lokað um stund milli Selfoss og Hveragerðis eftir að bílar fuku útaf veginum undir Ingólfsfjalli.

Versnandi færð er í Kömbum og þar sitja bílar fastir. Þá er einnig slæm færð og skyggni í Draugahlíðarbrekku og Þrengslum. Ákveðið var að loka veginum og greiða úr þeirri flækju sem þegar hefur skapast áður en hún verður verri. Vonast er eftir að lokunin vari ekki lengi.

Lokað er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum, en hálka og skafrenningur á Suðurstrandarvegi, annars er hálka eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi og skafrenningur eða snjókoma. Þungfært er á Lyngdalsheiði. Þæfingsfærð er í Grafningi og þungfært á kafla og einnig þæfingur á nokkrum leiðum í uppsveitum Suðurlands. Þungfært er á Villingaholtsvegi og efst á Skeiðavegi og Landvegi.

Hálkublettir eru einnig með suðausturströndinni að Höfn en snjóþekja eða hálka þaðan og áfram suður.

Lægðardrag er undan suðvesturströndinni, það færist nær og með því éljabakkar og strekkingsvindur með skafrenningsfjúki suðvestan- og vestanlands frá því upp úr hádegi og fram á nótt.

UPPFÆRT 20:20 Búið er að opna veginn undir Ingólfsfjalli

Fyrri greinGuðmundur Árni fer ekki til Qatar
Næsta greinBasti bjargaði stigi