Veður fer hratt versnandi á Hellisheiði og Þrengslum og er búist við að veður versni enn frekar þegar líður á nóttina.
Vegagerðin hefur af þeim sökum ákveðið að hætta fylgdarakstri um Suðurlandsveg sem snjóruðningstæki hafa sinnt með hléum undanfarnar klukkustundir.
Lokun á Suðurlandsvegi um Hellisheiði og Sandskeið mun því verða áfram sem og lokun á Þrengslavegi. Ráðgert er að reyna að opna vegina er veður gengur niður undir morgun.
Björgunarsveitir sinna lokunum í umboði lögreglu og Vegagerðarinnar.
Suðurstrandavegur er opinn og verður allt kapp lagt á að halda honum opnum. Búast má þó við að veður komi til með að versna þar í nótt.
Lögregla biður vegfarendur um að virða lokanir lögreglu og vegagerðarinnar. Nánari upplýsingar verða veittar samhliða því sem þær berast eða veður og færð breytist.