Svæðisstjórn björgunarsveita hefur verið virkjuð í Árnessýslu vegna fjölda ökutækja sem sitja fastir á Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði.
Þriggja bifreiða árekstur varð á Hellisheiði en meiðsli ekki alvarleg. Stutt er í að Hellisheiði verði hreinsuð af bifreiðum sem hafa setið þar fastar.
Mjög slæmt veður er í uppsveitum Árnessýslu og skiptir fjöldi bifreiða, sem sitja fastar, tugum. Fjölmargar bifreiðar sitja fastar á Lyngdalsheiði, Mosfellsheiði og við Þingvelli. Þá hafa einnig borist tilkynningar um fastar bifreiðar á Laugarvatnsvegi og Biskupstungnabraut.
Opna fjöldahjálparstöð á Borg
Stefnt er að opnun fjöldahjálpastöðvar á Borg í Grímsnesi. Lögregla biður ökumenn og íbúa uppsveita Árnessýslu að halda kyrru fyrir og virða lokanir lögreglu og Vegagerðarinnar.
Frekari upplýsingar verða veittar eftir því sem aðgerðum vindur fram.
Lokanir hafa verið settar á Biskupstungnabraut, Lyngdalsheiði, Þingvallaveg og Mosfellsheiði.
Allt lokað fyrir austan
Þá er þjóðvegur 1 lokaður frá Markarfljóti austan við Hvolsvöll, alveg austur í Jökulsárlón. Suðaustanlands, einkum frá Vík austur í Jökulsárlón verður NV 23-25 m/s, nánast ekkert skyggni í glórulausum skafrenningi. Lagast ekki að gagni fyrr en seint í nótt og fyrramálið.
Í kvöld bætir heldur í vind SV-lands með skafrenningi. Í fyrramálið, líklega eftir kl. 9 gerir byl með NV stormi og snjókomu SV-lands með hléum fram á kvöld.
UPPFÆRT 18:06: Rauði krossinn hefur opnað fjöldahjálparstöð í húsnæði sínu að Eyrarvegi 28 á Selfossi fyrir veðurteppa ferðalanga. // The Icelandic Red Cross has opened an emergency shelter in Selfoss, in the south of Iceland due to bad weather.