
Vegagerðin lokaði í kvöld Suðurlandsvegi um Hellisheiði, sem og Þrengslavegi vegna veðurs. Báðar leiðir hafa verið opnaðar aftur.
Þá var Suðurlandsvegur sömuleiðis lokaður undir Eyjafjöllum og að Vík og í Öræfum á milli Gígjukvíslar og Jökulsárlóns.
Björgunarsveitir hafa haft í nægu að snúast í Mýrdal og í Öræfum. Meðal annars fóru tvær rútur útaf veginum nálægt Vík, önnur þeirra á Reynisfjalli og hin við Reynishverfi.
Mbl.is greinir frá því að öll gistipláss séu orðin full í Vík og á mynd Sigurðar Hjálmarssonar sem fylgir fréttinni hér að ofan sést að það er löng bílaröð í Vík sem bíður þess að vegurinn um Reynisfjall opni aftur. Að sögn Sigurðar er veðrið ný dottið niður í Vík og styttist í að vegurinn opni en ruðningsbíll er nýfarinn til vesturs.
Þæfingsfærð er á Lyngdalsheiði og skafrenningur víða í uppsveitum Árnessýslu.
UPPFÆRT 21:22: Búið er að opna Suðurlandsveg milli Markarfljóts og Víkur.
UPPFÆRT 22:51: Búið er að opna Hellisheiði og Þrengsli.