Hellur og lagnir ehf í Hafnarfirði áttu eina tilboðið í endurbætur á innviðum á hverasvæðinu við Geysi í Haukadal sem Ríkiskaup auglýstu í sumar.
Tilboð Hellur og lagnir hljóðaði upp á 215,7 milljónir króna og var 88% af kostnaðaráætlun Ríkiskaupa, sem er 244,6 milljónir króna.
Verkið á að vinna í haust og er fyrsti áfangi af þremur í talsverðum endurbótum á aðstöðu ferðafólks á hverasvæðinu. Meðal annars á að leggja göngustíga frá nýjum inngangi inn á svæðið, um fjölbreytt hverasvæði að Strokki.