Erlendur ferðamaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis við Flúðir um helgina. Lögreglumenn voru þar í eftirliti á ómerktum bíl.
Maðurinn kvaðst hann hafa fengið þær upplýsingar hjá þeim sem leigði honum húsnæði að þar væri allt í lagi að aka þó hann væri búinn að fá sér aðeins í glas ef hann væri ekki að fara nema um sveitina.
Lögreglan hefur ekki getað sannreynt þessa sögu en í dagbók lögreglunnar segir að öruggt sé að þeim sem búa í næsta nágrenni sé lítill akkur í að fá ölvaða ökumenn innan um umferð annarra sem þarna dvelja eða búa.
Í blóði ökumannsins mældust 1,37 prómill áfengis. Bróðir ferðamannsins, farþegi í bílnum, brást ókvæða við afskiptum lögreglu og endaði með því að hann var handtekinn og gisti fangageymslu þar til áfengisvíman var runnin af honum.
Í liðinni viku vor tveir ökumenn kærðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra var á Austurvegi á Selfossi en hinn á Landeyjahafnarvegi. Báðir sýndu jákvæða svörun við THC sem er virka efnið í kannabis og bíða nú niðurstöðu rannsókna á blóðsýnum sínum með framhald málsins.
25 voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Sá sem hraðast ók var á 137 km/klst hraða á Suðurlandsvegi í Flóa. 90 þúsund krónur í sekt þar og mun minni gleði inn í sumarfríið.