Hentu þýfinu út á ferð

Lögreglan á Selfossi handtók tvo menn í nótt sem grunaðir eru um innbrot í að minnsta kosti þrjá sumarbústaði í Grímsnesinu.

Lögreglan veitti ferðum mannanna athygli í Grímsnesinu en í sama mund urðu þjófarnir varir við lögregluna. Þeir óku því af stað í aðra átt og tók annar mannanna til við að henda þýfinu út úr bílnum svo að flatskjáir og hljómtæki voru á víð og dreif um veginn.

Mennirnir eru búsettir í Reykjavík og hefur annar þeirra komið við sögu lögreglu áður. Lögregla hefur haft upp á eigendum sumarbústaðanna þriggja sem vitað er til að brotist hafi verið inn í, en segir ekki útilokað að um fleiri innbrot hafi verið að ræða.

Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu á Selfossi og bíða yfirheyrslu í dag.

Fyrri greinGrunur um íkveikju
Næsta greinInga Lind: Vörum okkur á óskalistum