Í óveðrinu í gær fauk mikið af sandi vestast úr fjörunni yfir þorpið í Vík í Mýrdal, svo að þar er allt svart af sandi vestantil og sandskaflar á götum.
„Hér er allt í sandi og það er klárlega mikið verk fyrir höndum að þrífa sand og salt af götum, húsum og bílum. Fróðir menn segja mér að þetta sé ekkert nýtt en ég hef ekki upplifað þetta í svona miklu magni síðan við fluttum til Víkur. Það væri klárlega góð tímasetning að byrja að mynda seríu númer tvö af Kötlu því ástandið er svipað og í þáttunum,“ sagði Sveinn Sigurðsson, hjá Smiðjunni Brugghús í Vík, í samtali við sunnlenska.is.
Þá hefur sjór gengið á land austan við þorpið svo að nú er sjávarlón frá nýja Kötlugarðinum suður af Víkurkletti vestur að elsta garðinum skammt austan við þorpið.
Sigurður Hjálmarsson var á ferðinni í Vík í morgun og tók myndirnar hér fyrir neðan – þær tala sínu máli.