„Það leggst geysilega vel í okkur að halda Landsmót hestamanna á Hellu á því tímamótaári 2020. Hérna er reyndar mikil reynsla af stórmótahaldi af þessu tagi en þetta verður í sjötta sinn sem Landsmót er haldið á Hellu.“
Þetta segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, þegar hann var spurður hvernig legðist í heimamenn að halda landsmót hestamanna eftir fjögur ár.
Ágúst segir mikla samstöðu á svæðinu og metnað til að halda glæsilegt mót. „Öll sunnlensku hestamannafélögin standa þétt að baki mótinu og sveitarfélögin hér einnig en það er félagið Rangárbakkar sem er hinn formlegi mótshaldari. Ætlunin er að standa að mótinu á okkar eigin forsendum og byggja undirbúning og rekstur mótsins á heimafólki. Við munum nota þennan tíma fram að mótinu vel, halda áfram að hlúa að svæðinu, sinna ræktunarstarfi og umhverfismálum og hinu nýja hesthúsahverfi sem er að rísa innan svæðisins á Rangárbökkum,“ segir Ágúst.
En hversu mikilvægt er fyrir samfélagið á Suðurlandi og ekki síst í Rangárþingi að fá mót sem þetta? „Það er okkur auðvitað metnaðarmál því hér á Suðurlandi eru öflugustu búgarðarnir og kraftmesta hestafólkið. Það er alveg óhætt að sleppa allri sunnlenskri hógværð í þessum efnum, hér er háborg íslenskrar hrossaræktar,“ segir sveitarstjóri Rangárþings ytra að lokum.