Skipstjóri Herjólfs þandi þokulúðrana óspart þegar farþegaferjan lagði upp í sína síðustu ferð frá Þorlákshöfn í hádeginu í dag.
Áætlunarsiglingar milli Þorlákshafnar og Vestmanaeyja hafa staðið yfir í 34 ár en í dag hefst nýr kafli í siglingasögunni þegar Landeyjahöfn verður opnuð síðdegis.
Við það að Herjólfur sigli í burtu sjá Ölfusingar á eftir um 18 milljónum króna á ári, sem er um fjórðungur tekna Hafnarsjóðs Þorlákshafnar.
Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Ölfusingar hafi skoðað möguleikana á ferjusiglingum milli Þorlákshafnar og Aberdeen í Skotlandi eða Newcastle á Englandi. Sveinn Steinarsson, formaður bæjarráðs í Ölfusi, segir að ekkert hafi gerst í málinu en áhugi sé fyrir hendi.