Hert skilyrði við umsóknir

Þeir sem sækja um félagslegar leiguíbúðir í Sveitarfélaginu Árborg þurfa að hafa haft lögheimili í sveitarfélaginu í þrjú ár til þess að uppfylla skilyrði um hæfi samkvæmt nýjum reglum.

Bæjarráð samþykkti tillögur félagsmálanefndar þess efnis í liðinni viku. Samkvæmt fyrri reglum þurfti fólk einungis að hafa átt lögheimili í sveitarfélaginu í eitt ár til að fá slíkar íbúðir.

Ari Björn Thorarensen, formaður félagsmálanefndar Árborgar, segir ástæðuna fyrir breytingunni að verið sé að reyna að stytta biðlista eftir félagslegum íbúðum.

Félagslegar íbúðir í Árborg eru hlutfallslega mun fleiri en í flestum öðrum sveitarfélögum á landinu og hefur borið á því að fólk hafi flutt til sveitarfélagsins til þess að auka möguleikann á því að komast í félagsíbúðir. Bæjaryfirvöld vilji því samræma reglurnar reglum Reykjavíkurborgar.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinHeggnasi nær sexfaldaði leiguna
Næsta greinVar „mjög svangur og áfengisþurfi“