Síðastliðinn föstudag varð ökumaður á Suðurlandsvegi fyrir því óhappi að aka á hreindýr austan við Jökulsárlón.
Dýrið drapst og töluvert tjón varð á bifreiðinni sem þó reyndist ökufær eftir slysið. Ökumaður bifreiðarinnar var að eigin sögn lemstraður eftir en taldi sig ekki alvarlega meiddan.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi fyrir síðustu viku. Þar er greint frá tveimur öðrum slysum í umdæminu.
Á mánudag voru viðbragðsaðilar kallaðir til eftir að aðili féll af hestbaki við hesthúsahverfið í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði. Hinn slasaði var illa áttaður þegar komið var á vettvang og reyndist hafa fengið þungt höfuðhögg og var hjálmur hans brotinn. Hestamaðurinn var fluttur til aðhlynningar á HSU á Selfossi.
Á þriðjudag missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Þykkvabæjarvegi með þeim afleiðingum að bifreiðin valt og stöðvaðist síðan á árbakka Hólsár og að hluta úti í ánni. Töluvert viðbragð var kallað út vegna slyssins en meiðsli ökumannsins reyndust minniháttar og var gert að þeim á HSU. Hann var einn í bílnum.