Beinar sjónvarpsútsendingar í háskerpu verða frá báðum keppnisvöllunum á Landsmóti hestamanna á Gaddstaðaflötum á sérstakri Landsmótsrás í Sjónvarpi Símans.
Mótið fer fram dagana 30. júní til 6. júlí.
Á Landsmótsrásinni verða ekki aðeins beinar útsendingar heldur verður einnig hægt að fylgjast með undankeppni og undirbúningi unga knapans Arnars Mána Sigurjónssonar fyrir mótið í glænýjum raunveruleikaþætti sem frumsýndur verður í Sjónvarpi Símans.
Tökulið frá framleiðslufyrirtækinu Kukli fylgir Arnari Mána svo eftir á Landsmótinu sjálfu; tekur upp, klippir og verða þættirnir sýndir jafnóðum í Sjónvarpi Símans.
„Hestamenn geta aukið upplifun sína af mótinu með því að hafa Landsmótsrásina með í för,“ segir Axel Ómarsson, framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna: „Landsmótsgestirnir geta þannig fylgst með báðum keppnisvöllunum samtímis úr áhorfendaskaranum á Hellu, haft augun á mótinu inni í tjaldi á hvíldartíma eða utan mótsvæðis þurfi þeir að skreppa frá,“ bendir hann á.
„Hestaáhugamenn sem ekki komast á Hellu geta einnig fylgst gaumgæfilega með keppninni í gegnum Landsmótsrásina í Sjónvarpi Símans.“
Axel nefnir einnig að með Tímaflakkinu verður hægt að horfa á sjónvarpsútsendinguna 24 stundir aftur í tímann: „Svo má nota appið fyrir Sjónvarpi Símans til að sjá tilþrifin aftur og aftur úr brekkunni.“
Njáll Þórðarson, vörustjóri hjá Símanum, fagnar samstarfinu við hestamenn sem nú tekur nýja stefnu. „Síminn hefur verið bakhjarl Landsmóta hestamanna til margra ára. Á árinu 2012 kynntum við app fyrir mótið til leiks og núna sjónvarpsútsendingarnar í appinu að Sjónvarpi Símans. Við erum mjög spennt að sjá hvaða móttökur Landsmótsrásin fær og munum að sjálfsögðu halda appinu úti með öllum þeim fréttum og upplýsingum sem þar eru.“