Gamalt hesthús á bænum Efra-Langholti í Hrunamannahreppi eyðilagðist í eldsvoða í kvöld. Allt tiltækt slökkvilið úr uppsveitunum var kallað út vegna eldsins.
Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn kl. 18:22 í kvöld og var allur tiltækur mannafli Brunavarna Árnessýslu á Flúðum, í Árnesi og Reykholti kallaður út ásamt tankbíl frá Selfossi.
„Húsið var alelda þegar fyrstu slökkviliðsmenn frá Flúðum komu á staðinn. Þetta er sirka 600 fm hús en það voru engin hross inni í því og enginn sem slasaðist,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri BÁ, þegar sunnlenska.is ræddi við hann klukkan að verða níu í kvöld.
„Slökkvistarfið gekk vel og því er að ljúka núna. Það var talsvert rok á vettvangi og menn fóru í það að fergja niður járnplötur þegar búið var að slökkva. En þetta gekk ágætlega, við þurftum að sækja vatn á tankbílum á Flúðir,“ sagði Lárus ennfremur en um 30 slökkviliðsmenn sinntu útkallinu.
Eldsupptök liggja ekki fyrir en þau verða til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.