Í gær undirrituðu fulltrúar Pure North Recycling, Bændasamtakanna, Skaftárhrepps og Sorpsamlags Strandasýslu samning um samstarf sem eykur sjálfbærni Íslands og eflir hringrásarhagkerfið.
Með samstarfinu verður bændum, sveitarfélögunum og fleirum gert kleift að skila heyrúlluplasti í innlenda endurvinnslu. Samkomulagið er mikilvægur hlekkur til bættrar úrgangsstjórnunar á Íslandi.
„Nú þegar höfum við átt gott samstarf við sveitarfélög, bændur og fyrirtæki í landinu sem hafa sýnt frumkvæði um söfnun og bætta umgengni á plastefnum. Hugmyndin með samstarfinu er að einfalda og auðvelda aðgengi að innlendri endurvinnslu,“ segir Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North Recycling.
Fyrirtækið hefur endurunnið plast síðastliðin sex ár í Hveragerði og stefnir í átt að uppbyggingu hringrásarhagkerfisins með framleiðslu á vörum úr endurunnu plasti. Að sögn Sigurðar er samkomulagið er í takti við hringrásarhagkerfið og stefnu stjórnvalda.
„Bændasamtökin hafa sett sér metnaðarfulla umhverfisstefnu og mikill metnaður er innan sveitarfélaganna um að gera betur er kemur að úrgangsmálum. Samstarfið mun stuðla að vitundarvakningu hér á landi um mikilvægi flokkunar og þeim áhrifum sem betri úrgangsstjórnun hefur á landbúnað.“
Samningurinn er til 5 ára og á þeim tíma verður stefnt að því að það plast sem falli til í innlendum landbúnaði nýtist í vöruframleiðslu fyrir innlendan landbúnað. Vinnsluaðferð Pure North er einstök á heimsvísu en nýting umhverfisvænna orkugjafa leiðir af sér allt að 75% minni kolefnislosun til viðbótar við minni umhverfisáhrif vegna flutninga á óunnu plasti frá Íslandi.