Sveitarstjórn Bláskógabyggðar kom saman í dag vegna þeirrar ákvörðunar Háskóla Íslands að færa grunnnám í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar mótmælir harðlega ákvörðun Háskóla Íslands að færa nám í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Með þessari ákvörðun er Háskóli Íslands að bregðast því trausti að vera háskóli allra landsmanna.
„Það er okkur óskiljanlegt að Háskóli Íslands vilji ekki fara í öfluga og markvissa markaðssetningu á námi í íþrótta- og heilsufræði til að fjölga nemendum eins og starfsmenn skólans, nemendur, þingmenn og sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafa ítrekað lagt til. Að flytja starfsemina til Reykjavíkur mun ekki leysa þann vanda sem við er að etja. Það læðist að okkur sá grunur að aðrar ástæður en staðsetning, hagræðing rekstrar og fækkun nemenda séu ástæða þessarar ákvörðunar. Engin haldbær rök eru fyrir þessari ákvörðun háskólaráðs enda hefur allt ferlið í kringum þessa ákvarðanatöku verið með undarlegasta móti,“ segir í fréttatilkynningu sem sveitarstjórn sendi frá sér eftir fundinn.
„Í okkar huga er þetta hápólitískt byggðamál sem varðar spurninguna hvernig við viljum að landið okkar byggist upp í framtíðinni. Er stefnan sett á að sérhæfð störf sem krefjast menntunar verði á höfuðborgarsvæðinu á meðan landsbyggðin á að búa við einsleitni og lágt menntunarstig. Að störf á landsbyggðinni miðist eingöngu við grunnatvinnuvegina og ferðaþjónustu. Það er varhugaverð þróun.
Óljósar mótvægisaðgerðir eins og minnst hefur verið á undanfarið eru oftar en ekki skyndilausnir sem halda ekki til lengdar og skorum við því á stjórnendur Háskóla Íslands að endurskoða þessa ákvörðun sína. Einnig trúum við því að þingmenn og ráðherra mennta- og menningarmála hafi ekki sagt sitt síðasta orð í þessu máli. Að okkar mati er mjög mikilvægt fyrir þjóðina sem heild að stuðlað sé að fjölbreyttni í atvinnutækifærum og menntun um allt land en ekki bara á höfuðborgarsvæðinu,“ segir ennfremur í tilkynningu sveitarstjórnar.