Forseti Íslands sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Fjórir Sunnlendingar eru í þeim hópi.
Auður Hildur Hákonardóttir, myndlistarkona og rithöfundur, var sæmd riddarakrossi fyrir framlag til myndlistar og störf í þágu kvennabaráttu. Hildur bjó lengi á Straumum í Ölfusi og lét víða að sér kveða í menningarlífi Sunnlendinga en hún er búsett í Reykjavík í dag.
Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslustöðinni í Vík í Mýrdal og fyrrverandi oddviti Mýrdalshrepps, var sæmd riddarakrossi fyrir framlag til heilbrigðisþjónustu og sveitarstjórnar- og félagsstarfa í heimabyggð.
Knútur Rafn Ármann, á garðyrkjustöðinni Friðheimum í Reykholti í Biskupstungum, var sæmdur riddarkrossi fyrir frumkvöðlastarf á sviði matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingar.
Reynir Pétur Steinunnarson, garðyrkjubóndi á Sólheimum í Grímsnesi, var sæmdur riddarakrossi fyrir afrek og framgöngu í þágu fatlaðra. Reynir Pétur er þekktastur fyrir fræga göngu sína umhverfis Ísland árið 1985 og safnaði þannig áheitum sem nýtt voru við gerð íþróttahúss að Sólheimum. Um leið vakti Reynir Pétur athygli á málstað fólks með fötlun og þroskaskerðingar.
Meðal annarra Fálkaorðuhafa eru Margrét Bóasdóttir, söngkona og söngstjóri, Elísabet Gunnarsdóttir knattspyrnuþjálfari og Sigurður Harðarson rafeindavirkjameistari.