Í næstu viku, dagana 17.-23. janúar, ætlar Forvarnateymi Árborgar í samvinnu við sveitarfélagið að halda sína fyrstu Hinseginviku frá upphafi.
Hátíðin er haldin til að auka fræðslu, skapa umræður og veita stuðning til þeirra sem tengja við hinsegin málefni á einn eða annan hátt. Til að mynda verða lesnar bækur um hinsegin málefni í leikskólum sveitarfélagsins, regnbogafánum verður flaggað víðsvegar um bæinn og ætlar GK bakarí að baka í regnbogalitum. Stofnanir og fyrirtæki eru hvött til að taka þátt með einum eða öðrum hætti og allir íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að klæðast regnbogalitum þann 19. janúar og sýna þannig samstöðu og stuðning.
Þann 17. janúar kl. 20:30 verður fræðsla á TEAMS í boði frá Samtökunum ‘78 fyrir íbúa sveitarfélagsins. Í fræðslunni verður farið yfir grunninn að hinseginleikanum, fjallað um kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu. Farið er yfir helstu grunnhugtök og orðanotkun tengda hinseginleikanum og fjallað um starf Samtakanna ’78. Hægt verður að senda inn nafnlausar spurningar sem fyrirlesarinn mun taka fyrir í lok fyrirlestursins.