Hitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps og eigendur Orkubús Vaðness ehf. hafa gengið frá samningi sín á milli um að Hitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps kaupi allt hlutafé í Orkubúinu. Kaupverðið er 326,9 milljónir króna.
Samtímis var undirritaður samningur um að Hitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps leigi jarðhitaréttinn í Vaðnesi. Að auki mun Vatnsveita Grímsnes- og Grafningshrepps taka yfir kaldavatnsveitu Orkubús Vaðness. Kaupin fela í sér að Hitaveita Grímsnes- og Grafningshrepps tekur við rekstri Orkubúsins og kaupir allan búnað og lagnir félagsins.
Gjaldskrá félagsins helst óbreytt í kjölfar kaupanna, þangað til að innleiðingu félagsins til sveitarfélagsins er lokið. Í kjölfar samningsins verður ráðist í frekari orkuöflun á Vaðnesjörðinni í samráði við landeigendur.
Stórt skref í uppbyggingu sveitarfélagsins
„Þessi samningur er stórt skref fyrir áframhaldandi uppbyggingu sveitarfélagsins en með þessu bætast um 270 notendur við núverandi hitaveitukerfi sveitarfélagsins sem telur um 530 notendur fyrir. Töluverð eftirspurn er eftir heitu vatni í sveitarfélaginu auk þess sem framundan er mikil uppbygging íbúðarhúsa og frístundahúsa auk frekari atvinnureksturs,“ segir í tilkynningu frá Grímsnes- og Grafningshreppi.
Næsta verkefni er borun á nýrri vinnsluholu en ÍSOR er búið að hanna nýja holu í grennd við núverandi vinnslusvæði. Borun nýju vinnsluholunnar á að vera lokið árið 2024 ef allt gengur eftir.