Vespa og bifreið lentu í árekstri í Hveragerði síðastliðinn miðvikudag. Á vespunni var hjálmlaus farþegi en ökumaðurinn var með hjálm.
Sjúkraflutningamenn hlúðu að ökumanninum og farþeganum á vettvangi en ekki var talin ástæða til að flytja áhöfn vespunnar á sjúkrahús. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að ökumaður vespunnar taldi að bremsurnar hefðu ekki virkað sem skyldi í aðdraganda óhappsins.
Fleiri slys voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Á þriðjudag var bíl ekið á ljósastaur við Suðurhóla á Selfossi. Áreksturinn var harður en ökumaður og barn sem var í bílnum, í viðeigandi öryggisbúnaði, sluppu án teljandi meiðsla. Staurinn lá hins vegar óvígur eftir.
Þá var bíl ekið útaf Suðurlandsvegi við Skeiðavegamót á mánudag. Bíllinn dró kerru og stöðvaðist hann á hjólunum úti í móa vestan Skeiðavegar eftir að hafa lent á ljósastaur. Ökumaðurinn var einn á ferð og slapp ómeiddur.