Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir frá Stóru-Sandvík lenti í þeirri óskemmtilegu lífsreynslu að ekið var á hana þar sem hún var að hjóla í Reykjavík í gær.
Fjóla tognaði á hálsi og baki, það blæddi inn á vinstri lærvöðva og hún er vel bólgin og hrufluð á sköflungunum auk þess sem líklegast hefur blætt inn á lið á ökkla, svo eitthvað sé nefnt. „Auk þess er ég öll stíf og stirð í líkamanum og marin hér og þar. En ég er hvergi brotin,“ segir Fjóla og þakkar hjálminum og góðu líkamlegu formi að ekki fór verr.
Slysið varð á göngustíg meðfram Laugardalsvellinum en bíllinn var að koma af bílaplaninu við World Class og þurfti að aka yfir göngustíginn til þess að komast út á götu.
Að sögn Fjólu mun slysið óhjákvæmlega hafa áhrif á undirbúningstímabilið hjá henni. „Þar sem um háls- og bakmeiðsli er að ræða þarf ég að fara mjög rólega af stað en ég er með góðan þjálfara og sjúkraþjálfara sem aðstoða mig við að byggja mig upp,” segir Fjóla sem býr og æfir stærstan hluta ársins í Falun í Svíþjóð undir handleiðslu Benke Blomkvist.
„Ég er búin að vinna og æfa á Íslandi í sumar og ætlaði að fara aftur út núna í byrjun október en ég er búin að seinka fluginu mínu aðeins því ég get ekki ferðast svona,“ segir Fjóla.
„Ég mun líklegast ekki keppa mikið á innanhússtímabilinu og undirbúningstímabilið verður óhjákvæmilega lengra vegna þessara meiðsla en þetta þýðir bara að ég þarf að leggja enn harðar að mér í einu og öllu. Ég ætla ekki að breyta markmiðunum mínum sem eru Evrópumeistaramótið á næsta ári og Ólympíuleikarnir 2016,“ segir Fjóla.
„Ef ég hefði ekki verið með hjálm gæti ég líklegast ekki verið að svara þessum spurningum. Ég vil ekki hugsa til þess hvernig það hafi nákvæmlega farið en hjálmurinn minn rispaðist mikið. Það þurfa allir að nota hjálm – alltaf!,“ segir Fjóla að lokum.