Hjálparsveitin aðstoðaði við sjúkraflutninga

Víkingur 1, bifreið Hjálparsveitar skáta í Hveragerði. Ljósmynd/HSSH

Liðsmenn Hjálparsveitar skáta í Hveragerði fluttu slasaðan göngumann á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í gærkvöldi vegna mikilla anna hjá sjúkraflutningamönnum HSU.

Sveitin fékk útkall um klukkan níu í gærkvöldi um einstakling sem hafði slasast á ökkla rétt ofan við bílastæðið í Reykjadal. Fimm félagar fóru í útkallið á bílum og hjólum sveitarinnar.

Vegna mikilla anna hjá sjúkraflutningamönnum HSU var óskað eftir því að hjálparsveitin myndi sjá um að flytja sjúklinginn á HSU. Var honum komið fyrir í Econoline bifreið sveitarinnar og fluttur á Selfoss.

Þegar félagar hjálparsveitarinnar voru í þann mund að yfirgefa HSU þá barst beiðni um að aðstoða sjúkraflutningamenn í Hveragerði. Þrír félagar mættu nokkrum mínútum síðar og kláruðu verkefnið með sjúkraflutningamönnum.

Fyrri greinDagur í 9. sæti á NM
Næsta greinRóið „Á móti straumnum“ frá Eyrarbakka á Stokkseyri