Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti á hátíðarfundi sínum þann 9. júní síðastliðinn að sett verði upp aðstaða til hjólabrettaiðkunar á lóð grunnskólans.
Í nokkur ár hefur hópur ungmenna sótt það fast að komið verði upp aðstöðu til að hægt sé að iðka þetta vinsæla sport í Hveragerði. Nú mun draumur þeirra verða að veruleika en gert er ráð fyrir að svæðið verði sett upp við hliðina á handboltavellinum á skólalóðinni.
Í minnisblaði menningar- og frístundafulltrúa kemur fram að verkefnið verði kærkomin viðbót við heilsusamlegt líferni almenninga og gefur um leið fólki sem stundar bretta og hjólaíþróttir tækifæri á aðstöðu innan bæjarmarka.
Stefnt er að því að svæðið verði komið upp fyrir Blómstrandi daga síðsumars og að þá geti áhugasamir leikið listir sínar á svæðinu.
Kostnaður við verkefnið mun nema rúmum 4 milljónum króna en brettasvæðið mun koma frá fyrirtækinu Rhino ramps.