Ökumaður hafði samband við lögregluna á Selfossi síðastliðinn þriðjudag eftir að hann hafði orðið fyrir því að aka á barn á hjóli á Eyravegi.
Barnið hafði staðið upp og hjólað í burtu án þess að tækist að ræða við það. Í ljós kom að um 13 ára stúlku var að ræða og hafði hún leitað til aðstandenda í nærliggjandi húsi og þaðan verið komið undir læknishendur. Stúlkan var marin en ekki alvarlega slösuð.
Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að gangandi vegfarandi hafi orðið fyrir bíl sem bakkað var úr stæði við Krónuna á Selfossi síðastliðinn laugardag. Hann féll í götuna og fékk höfuðhögg en er ekki alvarlega slasaður.